Innlent

Nokkrar leiðir að Kötlugosi

Nábýli Eyjafjallajökuls og Kötlu hefur orðið tilefni vangaveltna um áhrif gossins í Eyjafjallajökli á Kötlu. Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir nokkra möguleika á því hvaða áhrif gosið í Eyjafjallajökli hefur á Kötlu.

Einn möguleikinn sé að gosrásin undir Eyjafjallajökli þrýsti á Kötlu, þjappi henni saman og þrýstingurinn valdi því að hún fari að gjósa.

Annar möguleiki sé að ný gosrás skjótist úr rásinni undir Eyjafjallajökli, með svipuðum hætti og gerðist þegar fór að gjósa á Fimmvörðuhálsi. Gosrásin nýja gæti þá hitt fyrir gosrásina undir Kötlu og valdið gosi í henni.

Gosrásin gæti einnig hitt fyrir súran gúl sem er að finna undir Goðabungu, en í súrum gúl er massi af súrri kviku. Ef það gerðist þá gæti bæði orðið friðsælt gos eða sprengigos.

Slík gos eru þekkt víða og má þar nefna gosið í Öskju 1875, en það varð þannig að basísk gosrás hitti fyrir súran gúl sem grafinn var þar sem nú er Öskjuvatn. Víti í Kröflu varð sömuleiðis til við þannig gos.

Sá möguleiki er vitanlega einnig fyrir hendi að ekki gjósi í Kötlu.

Páll segir erfitt að spá fyrir um tímasetningar í þessu nýja gosi. Afar vel sé fylgst með jarðhræringunum og hafi verið gert síðan síðasta vor er innskotavirkni hófst. Hlé varð svo á henni síðasta sumar en hræringarnar hófust að nýju um áramótin. - sbt






Fleiri fréttir

Sjá meira


×