Fótbolti

Balotelli með tvö í öruggum sigri Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli skorar seinna markið sitt í kvöld.
Mario Balotelli skorar seinna markið sitt í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Getty
Manchester City tryggði sér sæti í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar með 3-0 sigri á austuríska liðinu Red Bull Salzburg á heimavelli í kvöld. Ítalska liðið Juventus er hinsvegar úr leik efir 1-1 jafntefli á móti Lech Poznan í Póllandi.

Mario Balotelli skoraði tvö fyrstu mörkin fyrir Manchester Coty í snjókomunni í kvöld. Hann kom City-liðinu í 1-0 á 18. mínútu eftir sendingu Pablo Zabaleta og skoraði síðan annað markið á 65. mínútu eftir sendingu frá Patrick Vieira.

Adam Johnson innsiglaði síðan sigurinn á 78. mínútu eftir laglegt einstaklingsframtak en Manchester City hefur þar með 10 stig eftir fimm leiki.

Juventus þurfti að vinna Lech Poznan í Póllandi til þess að eiga möguleika á að komast áfram en náði aðeins 1-1 jafntefli. Lech Poznan er með þriggja stiga forskot á Juventus fyrir lokaumferðina og með betri innbyrðisárangur sem þýðir að Juventus getur ekki náð þeim. Liðin gerðu 3-3 jafntefli í leik liðanna á Ítalíu.

Artjoms Rudnevs kom pólska liðinu í 1-0 eftir tólf mínútur en það nægði ekki ítalska liðinu að Vincenzo Iaquinta jafnaði leikinn sex mínútum fyrir leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×