Innlent

Veður og vatnsvernd ráða úrslitum

„Það þarf meðal annars að skoða betur hvort það eru veðurfarsleg skilyrði fyrir snjóframleiðslu áður en hægt er að taka afstöðu í málinu," segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, formaður bæjarráðs í Hafnarfirði, um þá hugmynd að styrkja rekstur skíðasvæðanna í Bláfjöllum og Skálafelli með snjóframleiðslu.

Tólf sveitarfélög eiga aðild að Skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins sem lagt hafa fram kostnaðaráætlun upp á samtals 768 milljónir vegna fyrirhugaðrar framleiðslu á snjó.

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) ræddi málið á fundi í ágúst. Í ályktun stjórnarinnar var meðal annars vísað til þess að heilbrigðisnefnd treystir sér ekki að svo stöddu til að samþykkja snjóframleiðsluna fyrir sitt leyti vegna mögulegra áhrifa hennar á vatnsból.

Í minnisblaði sem lagt var fyrir stjórn SSH voru útlistaðar niðurstöður athugana á gögnum úr veðurstöð í Bláfjöllum á fimm ára tímabili. Kannaðir voru möguleikar á snjóframleiðslu að teknu tilliti til hitastigs og vindhraða.

„Mjög góðar framleiðsluaðstæður eru til staðar til að framleiða nothæft lag allt að 6 sinnum yfir veturinn að jafnaði," segir meðal annars í minnisblaðinu.

Stjórn SSH segir hins vegar að „þétta" þurfi mat á veðurfarslegum upplýsingum. Sömuleiðis mat á „mögulegum ávinningi við að ráðast í þá fjárfestingu sem tillaga stjórnar skíðasvæðanna felur í sér".

- gar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×