Skoðun

Menntun á umbrotatímum

Hvernig tryggjum við öfluga og heildstæða menntun á þeim umbrotatímum sem nú eru? Þessari spurningu standa allir frammi fyrir á hverjum degi sem lifa og hrærast í menntageiranum. Flest höfum við okkar eigin reynslu af menntakerfinu og skoðanir á þessu mikilvæga verkefni og jafnvel svör við mörgum brennandi spurningum en þurfum vettvang til að þróa þær frekar og koma þeim á framfæri. Þess vegna býður menntamálaráðuneytið til opinnar umræðu á Menntaþingi þann 5. mars nk.

Á undarförnum árum hefur löggjöf um menntamál verið breytt þannig að segja má að allar meginstoðir menntakerfisins hafi verið teknar til endurskoðunar. Með nýjum lögum um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og opinbera háskóla og einnig um kennaramenntun og námsgögn má fullyrða að mörkuð hafi verið ný menntastefna. Segja má að á örfáum árum hafi verið sett heildstæð löggjöf um menntakerfið allt.

Um þessar mundir er unnið að innleiðingu hinnar nýju löggjafar með útgáfu reglugerða og þróun aðalnámskrár fyrir öll skólastig. Á menntaþinginu verður gerð grein fyrir þessu starfi og kynntir grunnþættir nýrrar menntastefnu og meginviðmið náms og kennslu í skólakerfinu. Þessi tímamót leyfa okkur að spyrja róttækra spurninga um fyrirkomulag náms, s.s. hvort tímabært sé að endurskoða námstíma eða skil milli skólastiga.

Aðrar spurningar sem velt verður upp tengjast þeim umbrotatímum sem við lifum og þurfum að laga okkur að, s.s. hvernig við tryggjum velferð í skólum hjá nemendum, kennurum og öðrum starfsmönnum á sama tíma og dregið er úr útgjöldum til skólamála. Þá skiptir líka máli að reyna að sjá fyrir sér sóknarfæri íslenska skólakerfisins og hvernig skólarnir geta tekið þátt í samfélagslegu uppbyggingarstarfi á Íslandi. Ég hvet sem flesta til að taka þátt í umræðunni.

Upplýsingar um Menntaþing má nálgast á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra.






Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×