Erlent

Búa sig undir afvopnunarátök

Síðustu dagar meirihlutans Demókratinn John Kerry og repúblikaninn Richard Lugar ræða málin í sjónvarpsþætti.fréttablaðið/AP
Síðustu dagar meirihlutans Demókratinn John Kerry og repúblikaninn Richard Lugar ræða málin í sjónvarpsþætti.fréttablaðið/AP

Barack Obama Bandaríkjaforseti reyndi ákaft að afla stuðnings meðal þingmanna við nýjan afvopnunarsamning við Rússa, sem á að taka við af START-samningnum frá 1991.

Obama undirritaði samninginn ásamt Dmitrí Medvedev Rússlandsforseta í apríl síðastliðnum. Obama vonast til að þingið staðfesti samninginn áður en árið er liðið, en nýtt þing tekur við í byrjun næsta árs og missa demókratar þá meirihluta sinn í fulltrúadeildinni.

Síðustu dagar ársins eru því eins konar kapphlaup við tímann.

Um síðustu helgi samþykkti þingið afnám banns við herþjónustu samkynhneigðra, sem síðan á valdatíð Bill Clinton hafa mátt gegna herþjónustu því aðeins að þeir hafi ekki hátt um kynhneigð sína.

Í lok síðustu viku tókst einnig samkomulag um skattalög, en þar höfðu repúblikanar það fram að skattaafsláttur nær til tekjuhárra en ekki bara til tekjulágra eins og verið hefur undanfarin ár.

Mjótt verður á mununum um staðfestingu afvopnunarsamningsins í öldungadeildinni. Til þess að hann verði samþykktur þarf meira en 60 atkvæði í deildinni. Talið er að 57 demókratar ætli að samþykkja samninginn og fjórir repúblikanar hafa einnig lofað stuðningi sínum.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×