Körfubolti

Bandaríkjamenn komnir í úrslitaleikinn á HM í körfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant og Andre Iguodala fagna í leiknum í kvöld.
Kevin Durant og Andre Iguodala fagna í leiknum í kvöld. Mynd/AP
Kevin Durant átti enn einn stórleikinn með bandaríska landsliðinu á HM í körfubolta í Tyrklandi þegar liðið tryggði sér sæti í úrslitaleiknum. Bandaríska liðið vann þá fimmtán stiga sigur á Litháen, 89-74, og mætir annaðhvort Tyrkjum eða Serbum í úrslitaleiknum. Bæði liðin voru búin að vinna fyrstu sjö leiki sína í keppninni fyrir leikinn.

Bandaríska liðið var þegar komið með ellefu stiga forskot, 23-12, eftir fyrsta leikhlutann og leiddi með fimmtán stigum í hálfleik, 42-27. Kevin Durant skoraði 24 stig í hálfleiknum eða aðeins þremur stigum minna en allt litháenska liðið.

Litháen hitti vel úr þriggja stiga skotunum í seinni hálfleik og hélt sér alltaf inn í leiknum en náði aldrei muninum niður fyrir tíu stigin.

Kevin Durant skoraði 38 stig og tók 9 fráköst fyrir Bandaríkin, Lamar Odom var með 13 stig og 10 fráköst og Russel Westbrook var með 12 stig.

Það munaði mikið um það hjá Litháen að stærsta stjarna liðsins, NBA-leikmaðruinn Linas Kleiza, átti afleitan dag en hann klikkaði á 10 af 11 skotum sínum og skoraði aðeins 4 stig.

Tyrkland og Serbia mætast í seinni undanúrslitaleiknum á eftir en úrslitaleikurinn fer fram á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×