Handbolti

Jónatan: Sóknarleikurinn verður fallegur í úrslitakeppninni

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
„Síðasta heimaleik unnum við með þrettán mörkum og við heyrðum það á fólki að þetta hefði ekki verið nógu gaman. Við ákváðum því að hugsa um skemmtanagildið fyrir áhorfendur í kvöld," gantaðist Jónatan Magnússon, fyrirliði Akureyrar eftir sigurinn á Fram í kvöld.

Eins og nánast alltaf er rætt um var Akureyri með gott forskot sem það lét af hendi en það kom þó ekki að sök í kvöld. Nú var liðið með sex marka forystu þegar fimmtán mínútur lifðu leiks en Fram minnkaði muninn í tvö mörk. Sigurinn var þó á endanum öruggur, 28-25 voru lokatölur.

„Við vorum eiginlega pínulítið búnir að gleyma hvernig á að klára leikina. Við vitum ekkert hvað er að gerast. Við kláruðum þetta í restina eftir atlögu þeirra að okkur. Við svöruðum fyrir okkur og þetta var nokkuð öruggt í lokin."

„Þetta var lykilleikur fyrir okkur. Við eigum HK næst sem er annar lykilleikur fyrir toppbaráttuna."

Fannst þér liðið spila vel í þessum leik?

„Vörnin var ágæt lengst af og markvarslan fín allan tímann. Það komu slæmir kaflar en þetta var nóg í kvöld. Heilt yfir var þetta ekkert spes en þetta var vinnusigur. Við eigum nokkra leikmenn inni."

„Við erum bara þannig lið að við vinnum leikina á vörn og markvörslu. Sóknarleikurinn er ekki fallegur, við vitum það, en hún verður falleg í úrslitakeppninni ef við komumst þangað," sagði brosmildur Jónatan sem átti ágætan leik í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×