Fótbolti

Lille ætlar ekki að pakka í vörn gegn Liverpool

Elvar Geir Magnússon skrifar
Úr fyrri leiknum.
Úr fyrri leiknum.

„Leikmenn vita að þetta er síðasta tækifærið á að vinna bikar á tímabilinu," segir Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool. Liðið tekur á móti Lille frá Frakklandi í Evrópudeildinni í kvöld.

Frakkarnir leiða 1-0 eftir fyrri leikinn. „Aðalatriðið er að ná að skora og halda hreinu. Við ætlum okkur að gera hvort tveggja. Við verðum að komast áfram," sagði Benítez.

„Við skoruðum fjögur mörk gegn Portsmouth á mánudaginn og vonandi náum við upp sama takti í Evrópudeildinni og svo í úrvalsdeildinni eftir það," sagði Benítez.

Rudi Garcia, þjálfari Lille, segist ekki þurfa að koma sínum mönnum í gírinn í kvöld. Það að spila á Anfield sé næg hvatning. „Við leggjum upp með það sama og í fyrri leiknum. Við stefnum á að skora, ekki bara verjast og ná markalausu jafntefli. Við eigum meiri möguleika ef við skorum," sagði Garcia.

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 20:05 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×