Á áttunda tímanum í morgun jókst styrkurinn í gosinu á Fimmvörðuhálsi töluvert og er talið að gufusprenging hafi orðið í eldstöðinni. Mikill gufustrókur sést nú frá gosinu og sýna mælitæki að hann nær um átta kílómetra upp í loft. Fljótlega dró þó úr virkninni á nýjan leik.
Þorgils Torfi Jónsson á Hellu segir hinsvegar ljóst að gossprungan hafi lengst töluvert til norð-austurs og segir hann að nú gjósi úr báðum endum sprungunnar. Þetta hefur þó ekki verið staðfest þar sem mælitæki jarðvísindamanna geta ekki staðfest að sprungan hafi lengst.
Lögreglan á Hvolsvelli segir heldur ekkert benda til þess að sprungan hafi lengst en Þorgils Torfi segist hafa mjög góða yfirsýn yfir gosið og að það fari ekkert á milli mála.