Handbolti

Þórður Rafn: Nú er einn titill eftir

Rafnar Orri Gunnarsson skrifar
Þórður Rafn Guðmundsson átti góðan leik. Mynd/Heimasíða Hauka
Þórður Rafn Guðmundsson átti góðan leik. Mynd/Heimasíða Hauka

„Ég var ánægður með fyrri hálfleikinn í kvöld. Svo breyttist þetta mikið í seinni hálfleik og virtist sem að menn væru orðnir saddir og farnir að hugsa um að fagna bikarnum í leikslok. Annars veit ég það ekki, það leit allavega þannig út," sagði Þórður Rafn Guðmundsson, leikmaður Hauka, eftir leikinn gegn Akureyri í kvöld.

Haukar fögnuðu deildarmeistaratitlinum og þar sem Akureyri sigraði leikinn gátu þeir líka fagnað þar sem þeir tryggðu sér sæti í úrslitakeppninni. Þórður Rafn átti góðan leik fyrir Hauka í kvöld, markahæstur í liði heimamanna með sjö mörk. Það voru margir af lykilmönnum liðsins hvíldir og hann segir að það sé mikilvægt að nýta öll tækifæri sem gefast inn á vellinum.

„Ég var ánægður með mína frammistöðu í dag og maður verður að vera klár þegar tækifærin gefast. En það er auðvitað alltaf leiðinlegt að tapa. Þeir breyttu vörninni í seinni hálfleik og tóku mig út, það var erfitt að aðlagast því. En nú er það bara úrslitakeppnin og mér líst bara vel þetta. Þetta er þriðja árið mitt í meistaraflokk og úrslitakeppnin er það allra skemmtilegasta. Núna er einn titill eftir og við ætlum okkur að klára það," sagði hinn ungi og efnilegi Þórður Rafn eftir að hafa tekið á móti verðlaunum sínum í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×