Handbolti

Einar Andri: Ætlum okkur stóra hluti með Loga

Elvar Geir Magnússon skrifar
Einar Andri Einarsson.
Einar Andri Einarsson.

Logi Geirsson er mættur aftur í búninginn hjá FH og var hann kynntur til sögunnar í Kaplakrika í dag.

Ljóst er að Einar Andri Einarsson verður áfram þjálfari FH en hann er að sjálfsögðu hæstánægður með að fá Loga í sitt lið.

„Ég fagna þessu. Logi er frábær leikmaður og frábær karakter. Ég held að hann muni hjálpa okkur innan og utan vallar. Hann mun hjálpa ungu strákunum okkar að þroskast enda með mikla reynslu af atvinnumennsku og landsliði. Hann er frábær viðbót við okkar lið," sagði Einar við Vísi.

Einar býst ekki við að fá fleiri leikmenn eins og staðan er núna. „Við erum bara að klára okkar leikmannamál. Jón Heiðar (Gunnarsson) fer erlendis en við fáum Sigurð Ágústsson aftur í staðinn. Sigurður hefur verið meiddur í allan vetur með slitið krossband. Við erum mjög ánægðir með okkar hóp en útilokum ekki að bæta einhverju við."

Búið er að ganga frá því að Einar verður áfram þjálfari FH. Hann segir engan vafa hafa komið í sinn huga þrátt fyrir dapurt gengi seinni hluta tímabils. „Það var aldrei vafi. Við erum að vinna samkvæmt okkar plani. Vissulega voru vonbrigði að vera ekki sæti ofar en við erum að þroska þessa stráka og þurfum að taka stærri skref næsta vetur," sagði Einar en FH missti af sæti í úrslitakeppninni.

Með því að fá Loga eru FH-ingar tvímælalaust að senda þau skilaboð að liðið ætlar sér stóra hluti næsta vetur. „Við settum okkur plan fyrir þremur árum og þar var áætlunin að ná góðum árangri á næsta tímabili. Með því að taka Loga inn í hópinn ætlum við okkur stóra hluti," sagði Einar.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×