Handbolti

Haukar bikarmeistarar árið 2010 eftir sigur gegn Val

Ómar Þorgeirsson skrifar
Frá leik Hauka og Vals.
Frá leik Hauka og Vals. Mynd/Daníel

Haukar unnu Val 23-15 í úrslitaleik Eimskipsbikars karla í handbolta í Laugardalshöll.

Jafnræði var með liðunum lengi vel en Haukar stungu af á síðustu tíu mínútunum og unnu átta marka sigur.

Varnarleikur og markvarsla voru í aðalhlutverki hjá báðum liðum framan af leik en þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var staðan aðeins 4-2 Haukum í vil.

Haukar voru áfram skrefinu á undan eftir það og staðan var 9-8 Haukum í vil þegar hálfleiksflautan gall.

Seinni hálfleikur var hnífjafn og gríðarlega spennandi. Valsmenn náðu að jafna leikinn 14-14 þegar rúmar tíu mínútur lifðu leiks en þá skelltu Haukar í lás og kláruðu leikinn með því að skora átta mörk í röð og staðan því orðin 22-14 en leikurinn endaði sem segir 23-15.

Guðmundur Árni Ólafsson var markahæstur hjá Haukum með 7 mörk en Sigurður Eggertsson skoraði flest mörk fyrir Val eða 7.

Birkir Ívar Guðmundsson varði 25 skot fyrir Hauka en hinum megin var Hlynur Mortens með 19 varða bolta.

Nánari umfjöllun um leikin auk viðtala við leikmenn birtist á Vísi síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×