Innlent

Ekkert bendir til að gosinu sé að ljúka

Sprengivirkni hefur aukist á ný og öskufallið um leið.
fréttablaðið/pjetur
Sprengivirkni hefur aukist á ný og öskufallið um leið. fréttablaðið/pjetur

Töluverðar breytingar hafa orðið á gosinu í Eyjafjallajökli á síðustu dögum. Hraunrennsli hefur minnkað verulega og sprengivirkni aukist til muna. Svartur gosmökkur steig upp beint frá gosstöðvunum í gær.

„Það er búið að vera ansi dimmt undir Eyjafjöllunum í dag [í gær]," segir Víðir Reynisson starfsmaður almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. „Það gengur á með dimmum öskuhryðjum auk þess sem mikið af ösku er að fjúka. Mökkurinn er þykkur en erfitt að átta sig á því hversu mikið þetta er."

Öskufallið í gær var þó ekkert í líkingu við það sem var þegar mest var. „En það verður allt grátt og skítugt, meðal annars þar sem búið var að hreinsa til," segir Víðir. Fullur viðbúnaður er á öllum vígstöðvum vegna gossins.

Í mati Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskólans á gosinu í gær segir að nýr fasi sé komið í gosið. Hraun sé hætt að renna og mestur hluti kvikunnar sundraður í kröftugu sprengigosi. Gosmökkur rísi hátt yfir gosstöðvum og búast megi við töluverðu gjóskufalli undan vindi. Ekkert bendi til þess að gosi sé að ljúka.

- shá, bþs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×