Nicklas Bendtner skoraði sína fyrstu þrennu þegar Arsenal slátraði Porto 5-0 í Meistaradeildinni. Bendtner klúðraði fjölmörgum dauðafærum síðasta laugardag þegar Arsenal mætti Burnley í úrvalsdeildinni.
Honum brást þó ekki bogalistin þegar Arsenal komst áfram í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar með 6-2 samanlögðum sigri á Porto.
Spurður hvort leikurinn á laugardag hafi ekkert setið í honum svaraði Bendtner: „Alls ekki. Alltaf þegar ég spila leiki þá hætti ég að hugsa um þá um leið og þeim er lokið," sagði Bendtner.
„Þetta var bara einn af þessum dögum en núna fann ég leiðina í markið. Ég er hæstánægður með þessa þrennu en á morgun verðum við að horfa fram veginn."
Arsenal sýndi sínar bestu hliðar í sóknarleiknum. „Þetta gefur okkur mikið sjálfstraust. Við viljum vinna Meistaradeildina, við höfum ekki fengið að upplifa það. Við nýttum færin okkar vel og það er gott," sagði Bendtner.