Handbolti

Jónatan: Liðin eiga að vera á núlli hjá dómurunum þegar leikurinn byrjar

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Jónatan Magnússon, Akureyringur.
Jónatan Magnússon, Akureyringur. Fréttablaðið/Daníel
Jónatan Magnússon, fyrirliði Akureyrar, var ómyrkur í máli eftir tapið gegn Val í kvöld. Hann gagnrýnir dómara leiksins harkalega.

Akureyringar fengu átta brottvísanir í leiknum og Valsmenn sex. Leikurinn var mjög harður og spennustigið hátt.

„Þegar dómarar segja við okkur eftir leikinn að við höfum ekki verið að spila handbolta í fyrri hálfleik, hvað segir það? Það er í fyrsta lagi rangt, eina rauða spjaldið fengu Valsmenn. Þetta er lýsandi dæmi um að þeir mæta inn með fyrirfram ákveðnar hugmyndir."

"Liðin eiga að vera á núlli þegar leikurinn byrjar. Núna eru þeir búnir að smitast af umræðunni að við spilum fast og þetta erbara lýsandi dæmi fyrir þá. Við spiluðum fast, allt í góðu með það, og þeir reka útaf í fyrstu sókn. Það er í fyrsta sinn í vetur sem það gerist."

"Og af hverju? Af því þeir hafa hlustað á umræðuna eftir leiki, hlustað á Óskar (Bjarna Óskarsson, þjálfara Vals,innsk), þar sem hann er að tala um alla 50/50 dóma sem við fáum, segir hann, af því við erum á heimavelli."

"Ég tek samt ekkert af Völsurum, þeir voru að spila betur en við. Við áttum í vandræðum með að skora."

"En þetta finnst mér vera algjör skandall, að liðin séu ekki á núlli þegar leikurinn byrjar."

En hvað um spilamennsku liðsins? „Hún var klárlega ekki góð. Við vorum bara slakir. Það voru alltof margir í liðinu sem voru lélegir. Þetta er í fyrsta skipti í vetur sem við fáum ekki þá markvörslu sem við erum vanir. Það var vinnsla í vörninni og hún var það besta af þessu þremur, markvörslu vörn og sókn.“

„Við grófum okkur smá holu og það er ekki alltaf hægt að reikna með að við komumst upp úr henni. Við settum pressu á þá, en þá komu að sjálfsögðu tvær mínútur. Við fengum of margar slíkar á okkur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×