Massimo Moratti, forseti Inter Milan, hefur ekki miklar áhyggjur af því að þjálfarinn Jose Mourinho sé á leið frá félaginu þrátt fyrir að Portúgalinn hafi ítrekað tjáð óánægju sína með ítalska fótboltann.
Mourinho, sem kom til Inter frá Chelsea árið 2008, sagðist í vikunni vera ánægður hjá Inter en að hann þoldi ekki ítalskan fótbolta og að hann saknaði Englands.
„Hann hefur sagt að hann sakni Englands frá fyrsta degi sem hann kom hingað. Hann hefur samning við Inter í tvö ár til viðbótar og hann verður hér jafnvel enn lengur. Það taka allir sínar eigin ákvarðanir og ég óttast ekki nostalgíu hans," sagði Massimo Moratti við La Gazzetta dello Sport.

