Innlent

Engin merki um að gosi sé að ljúka

 Í stöðumati Veðurstofunnar segir að sprengigos og gjóskumyndun sé aðeins lítið brot af því sem var þegar gosið var mest þó gjóskufalls gæti 40 km vestan gosstöðvanna.
Í stöðumati Veðurstofunnar segir að sprengigos og gjóskumyndun sé aðeins lítið brot af því sem var þegar gosið var mest þó gjóskufalls gæti 40 km vestan gosstöðvanna. MYND/Vilhelm

Kvikustreymi og gosmökkur í Eyjafjallajökli hefur verið með svipuðum hætti og undanfarna sólarhringa og hraun heldur áfram að renna til norðurs í upptökum Gígjökuls. Í stöðumati Veðurstofunnar segir að sprengigos og gjóskumyndun sé aðeins lítið brot af því sem var þegar gosið var mest þó gjóskufalls gæti 40 km vestan gosstöðvanna. Ekki sjást merki um að gosi sé að ljúka.

Í dag var flogið yfir gosstöðvarnar og sást vel til gossins í fluginu. „Gosvirkni í nyrðri katlinum er svipuð og síðustu daga. Gígurinn er staðsettur í suð-vesturhorni ketilsins og hleðst upp jafnt og þétt. Gígbarmar eru á að giska 50 m lægri en barmar ketilsins," segir ennfremur.

Stöðug klepravirkni er á gosstöðvunum og ná slettur í 100-200 m hæð. „Öskumekkir rísa upp með ákveðnu millibili en eru ekki stöðugir. Höggbylgjur sáust neðst í mekkinum. Hraun heldur áfram að renna til norðurs og hefur nú náð um 1 km frá gígnum."

Könnunarflugið leiddi einnig í ljós að dældir í jöklinum sem hraun rennur eftir hafa stækkað mikið frá á laugardegi þegar síðast sást til gosstöðvanna og er Gígjökull grár vegna gjóskufalls.




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×