Handbolti

Ólafur: Hrikalega gott að byrja á sigri

Kristinn Páll Teitsson skrifar
FH-ingurinn Ólafur Andrés Guðmundsson.
FH-ingurinn Ólafur Andrés Guðmundsson. Mynd/Daníel

„Það er hrikalega gott að byrja veturinn, það var klassa mæting og góður fyrsti leikur þó það megi margt bæta" sagði Ólafur Andrés Guðmundsson leikmaður FH eftir 34-25 sigur á Aftureldingu í fyrsta leik N1 deildarinnar á tímabilinu.

„Afturelding börðust fyrir hverjum einasta bolta og fengu góða stuðning hér í kvöld. Þeir sýndu það að þeir ætla að berjast og eru hörku góðir í handbolta en kannski vantaði aðeins upp á reynsluna þarna í lokin"

Afturelding hélt lengi vel í FH en FH keyrðu svo á þá í lok fyrri hálfleiks og voru með 5 stiga forskot í hálfleik. Afturelding byrjaði seinni hálfleik ágætlega en FH kafsigldu þá síðustu mínúturnar og úr varð öruggur 9 marka sigur.

„Við vorum aldrei að fara að vinna þetta í fyrri hálfleik, við tókum þetta á seiglunni og spiluðum okkar bolta og það skilaði sér í seinni hálfleik, við stressuðum okkur ekkert á að þeir minnkuðu muninn heldur spiluðum bara okkar bolta. Yfir allt held ég að betra liðið hafi unnið, handbolti er kaflaskiptur og maður þarf að spila sinn bolta og við gerðum það sem skilaði sér í góðum sigri"

Logi Geirsson spilaði sinn fyrsta leik fyrir FH eftir að hafa snúið heim úr atvinnumennsku og var Ólafur feginn að hafa hann í hópnum

„Logi er hrikalega góður handboltamaður, hann sýndi það í dag og er góður liðsstyrkur fyrir okkur. Góður karakter og leiðtogi, stjórnar leiknum og veit alveg hvað hann er að gera þarna inná. Hann hjálpar okkur yngri strákunum einnig að þróa leik okkar," sagði Ólafur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×