Viðskipti innlent

Hriplek vörn hjá endurskoðendum

Herdís Hallmarsdóttir lengst til hægri á sæti í slitastjórn Landsbankans.
Herdís Hallmarsdóttir lengst til hægri á sæti í slitastjórn Landsbankans.

Endurskoðendur geta krafist allra þeirra gagna sem þeir telja sig þurfa á að halda við endurskoðun uppgjöra. Þeir eiga ekki að sætta sig við framlögð gögn viðskiptavina sinna.

„Þeir eiga ekki að láta sér nægja eitthvað sem kúnninn leggur fram," segir Bjarni Frímann Karlsson, lektor í reikningshaldi við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Hann leggur áherslu á að verði endurskoðendur varir við eitthvað athugavert í uppgjörum viðskiptavina sinna eigi þeir að kalla eftir gögnum. Enginn viðskiptavinur á að geta neitað að verða við ósk þeirra, að sögn Bjarna.

Slitastjórn Landsbankans hefur tilkynnt stjórn Pricewaterhouse­Coopers (PwC) um ætlaða bótaskyldu vegna vanrækslu við endurskoðun á reikningum bankans árið 2007 auk þess að hafa ekki gert fyrirvara við árshlutauppgjör í aðdraganda bankahrunsins árið 2008.

Herdís Hallmarsdóttir, lögmaður sem sæti á í slitastjórn Landsbankans, segir að óskað hafi verið eftir vinnugögnum PwC. Þeirri ósk hafi verið hafnað.

„Vinnugögnin gætu sýnt fram á að eitthvað af því sem við höldum fram er ekki rétt," segir hún.

Í yfirlýsingu PwC segir að hlutverk fyrirtækisins hafi verið að láta í té álit á ársreikningum og hafa skoðun á hvort reikningsskil væru í samræmi við lög og reglur. Tekið hafi verið mið af þeim upplýsingum sem þeir höfðu aðgang að.

„Maður hefur ekki allar upplýsingar. Þessi afsökun endurskoðenda virðist harla léttvæg," segir Bjarni.

jonab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×