Handbolti

Sigfús: Gamli maðurinn hefur engu gleymt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sigfús er mættur aftur.
Sigfús er mættur aftur.

Valsmenn brostu í kvöld þegar silfurdrengurinn Sigfús Sigurðsson snéri aftur á handboltavöllinn eftir langa fjarveru.

Fyrir um hálfu ári síðan var útlit fyrir að ferill Sigfúsar væri á enda. Hann átti ekki að spila í kvöld en var kastað inn á völlinn þegar allt var í steik hjá Valsmönnum.

Þó svo Sigfús hafi ekki virkað í merkilegu formi stóð hann sig vel. Skoraði tvö góð mörk, stóð vaktina í vörnina vel og varði nokkur skot.

„Ég ætlaði bara að sitja fyrir aftan bekkinn og veita stuðning en svo duttu menn bara út og ég varð að koma inn," sagði Sigfús sem hefur verið duglegur í ræktinni en aðeins mætt á fjórar handboltaæfingar.

„Ég hélt þetta furðuvel út. Gamli maðurinn hefur engu gleymt. Það er seigt í „dieselnum" sagði Sigfús og glotti við tönn.

„Ég er ekkert búinn á því en aðallega fúll. Dómararnir gáfu þeim þetta undir lokin. Ég var búinn að ná boltanum, þeir brjóta á mér og fá svo boltann og víti. Svona er þetta, þeir sjá ekki allt þessir blessuðu dómarar," sagði Sigfús sem ætlar að reyna að vera með Valsmönnum út leiktíðina.

„Þetta er svo gaman að maður verður að reyna að vera með."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×