Handbolti

Ingvar Árnason: Við áttum bara að klára þennan leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingvar Árnason, fyrirliði Vals, í baráttunni við Atla Ævar Ingólfsson, línumann HK.
Ingvar Árnason, fyrirliði Vals, í baráttunni við Atla Ævar Ingólfsson, línumann HK. Mynd/Stefán

Ingvar Árnason, fyrirliði Vals, var ekki mjög sáttur með að hafa fengið bara eitt stig út úr leik Vals við HK í N1 deild karla í Vodafone-höllinni í gærkvöldi. Valur var með tveggja marka forskot og tveimur mönnum fleiri þegar fimm mínútur voru eftir en missti leikinn niður í 25-25 jafntefli.

„Þetta var klárlega tapað stig hjá okkur og það gæti orðið mikilvægt í baráttunni. Við vorum ekki nógu ferskir," sagði Ingvar eftir leikinn.

„Mér fannst við vera með þá allan leikinn og eiga að klára þá. Það klaufagangur hjá okkur í lokin þegar við vorum tveimur fleiri. Svo var spurning um nokkra dóma þarna í lokin sem mér fannst halla á okkur. Við klúðruðum þessu samt klárlega sjálfir," sagði Ingvar.

„Ég held að við eigum innbyrðisstöðuna á móti HK og þetta stig gæti hjálpað til og auðvitað er betra fá eitt stig en að fá ekki neitt. Við áttum bara að klára þennan leik," sagði Ingvar.

„Við erum komnir með flesta ef ekki alla til baka sem verða eitthvað með á tímabilinu. Við notuðum þá ekkert mjög mikið í dag en þeir eru aðkoma til baka og við getum farið að pússa okkur betur saman. Við verðum bara að gera það því það er lítið eftir og við þurfum stig," segir Ingvar en Valsliðið hefur ekki fengið mörg stig út úr síðustu leikjum.

„Þetta er búið að vera mjög erfitt og maður man bara ekki eftir svona hrinu nokkurn tímann hérna í Val. Við erum samt ennþá í baráttunni og ef við verðum í þessum fjórumefstu sætum þá getur allt gerst. Þetta snýst því allt um það núna að vera í topp fjórum," sagði Ingvar að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×