Innlent

Ærir og særir réttlætiskennd

Gluggað í skýrslu Þingmenn byrjuðu að glugga í níu binda skýrslu rannsóknarnefndar. Umræður hófust samdægurs og munu standa út vikuna.
Gluggað í skýrslu Þingmenn byrjuðu að glugga í níu binda skýrslu rannsóknarnefndar. Umræður hófust samdægurs og munu standa út vikuna.

Um helmingur þingmanna hefur þegar sett sig á mælendaskrá um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hún er til umræðu á Alþingi þessa viku og var rædd fram á kvöld í gær.

Einar K. Guðfinnsson, Sjálfstæðisflokki, sagði að það ærði og særði „réttlætiskennd venjulegs fólks að sjá í skýrslunni hvernig eigendur bankanna hafa misnotað þá“.

Tilteknir eigendur bankanna hafi ryksugað til sín peninga. Einn og sami aðilinn, Baugur, hafi fengið 53% af eiginfé bankanna að láni.

„Við verðum að taka skýrslunni alvarlega,“ segir Árni Þór Sigurðsson, VG. Hann vill að horfið verði frá auðhyggju og því afskiptaleysi um almannahagsmuni sem einkennt hafi íslensk stjórnmál.

Gunnar Bragi Sveinsson, Framsóknarflokki, sagði nauðsynlegt að læra af mistökum síðustu ára og áratuga varðandi löggjöf og stjórnsýslu en ekki mætti gleyma að „það voru bófar og ribbaldar“ sem rændu og tæmdu sjóði bankanna. „Þessa menn þarf að finna og gera upp sakir við þá.“

Þór Saari, Hreyfingunni, hvatti þau sem enn sitja á þingi og sátu áður í ríkisstjórn eða fengu styrki frá bönkunum til að segja af sér. Hann skoraði enn fremur á þingið að efna til nýrrar umræðu um skýrsluna þegar gefist hefði tími til að kynna sér efni hennar betur. - pg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×