Erlent

Spenna vegna dómsúrskurðar

Úrskurði fagnað Nemendur í hindúaskóla á Indlandi fögnuðu úrskurðinum.
fréttablaðið/AP
Úrskurði fagnað Nemendur í hindúaskóla á Indlandi fögnuðu úrskurðinum. fréttablaðið/AP

Lögregla og her höfðu mikinn viðbúnað í gær í bænum Ayodhya á norðanverðu Indlandi og víðar í landinu, eftir að dómstóll kvað upp þann úrskurð að múslimar og hindúar eigi að skipta á milli sín helgum stað, sem deilur hafa staðið um áratugum og jafnvel öldum saman.

Indverskir múslimar halda upp á staðinn vegna þess að þar standa rústir mosku, sem reist var á sextándu öld en eyðilögð í óeirðum árið 1992. Þeir vilja endurreisa moskuna.

Hindúar segja moskuna hafa verið reista á fæðingarstað guðsins Rama, og vilja því reisa þar bænahof.

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að múslimar geti gert tilkall til þriðjungs svæðisins, nefnilega þess hluta þar sem moskan stóð, en tveir hópar hindúa geti skipt á milli sín afganginum.

Fyrstu viðbrögð bæði múslima og hindúa við dómnum voru hófstilltari en búist var við. Lögmenn hvorra tveggja sögðust ætla að áfrýja úrskurðinum.

„Við vonumst til þess að hægt verði að leysa úr öllum vandamálum varðandi hindúa og múslima með vinsamlegum hætti,“ sagði Haji Arfat, leiðtogi annars hindúahópsins.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×