Viðskipti innlent

Starfsfólk Capacent tekur yfir reksturinn

Ingvi Þór Elliðason
Ingvi Þór Elliðason

Hópur starfsmanna Capacent hefur eignast fyrirtækið eftir að móðurfélagi þess mistókst að semja við viðskiptabanka sinn um niðurfellingu á erlendu láni. Aðrir starfsmenn fyrirtækisins munu á næstu dögum fá tækifæri til að eignast hlut í félaginu.

„Þetta er mikið áfall fyrir okkur, þetta var síðasti kosturinn í stöðunni," segir Ingvi Þór Elliðason, forstjóri Capacent á Íslandi. Hann segir markmiðið að rekstur fyrirtækisins haldi áfram, starfsfólkið haldi vinnunni, birgjar fái greitt og viðskiptavinir fái þjónustu.

Ekki náðist samkomulag við viðskiptabanka félagsins um niðurfellingu á erlendu láni sem tekið var til að fjárfesta í fyrirtækjum í Danmörku og Svíþjóð. Lánið, sem er í erlendri mynt, var um 700 milljónir þegar það var tekið árið 2007 en hefur hækkað verulega síðan. Félag starfsmannanna mun taka yfir skuldbindingar félagsins, fyrir utan umrætt lán.

„Aðalverðmæti fyrirtækisins er starfsfólkið sjálft, og með þessu tryggjum við að reksturinn haldi áfram með óbreyttu sniði," segir Ingvi. Hann segir að leggja verði félaginu til nýtt rekstrarfé, en reksturinn hafi verið réttum megin við núllið undanfarið, þrátt fyrir erfitt efnahagsástand. - bj








Fleiri fréttir

Sjá meira


×