Körfubolti

Helgi Már búinn að semja við Uppsala Basket

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helgi Már Magnússon.
Helgi Már Magnússon. Mynd/Arnþór
Helgi Már Magnússon er búinn að finna sér lið í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í vetur en hann hefur samið við Uppsala Basket liðið sem kom mjög á óvart í úrslitakeppninni síðasta vor og sló meðal annars Jakob Örn Sigurðarson og félaga í Sundsvall.

Uppsala Basket endaði í sjötta sæti deildarinnar í fyrra en fór alla leið í undanúrslit úrslitakeppninnar eftir að liðið vann 3-1 sigur á Sundsvall í átta liða úrslitunum. Þar tapaði Uppsala fyrir Plannja 3-1.

Helgi Már lék með Solna Vikings á síðasta tímabili en ekkert varð af því að hann spilaði þar áfram. Logi Gunnarsson mun hinsvegar halda uppi merkjum Íslendinga í liðinu en auk þeirra munu þeir Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson spila með Sundsvall-liðinu.

„Það getur alveg passað vel við mig að kalla mig fjölhæfan leikmann. Með Solna spilaði ég tvist, þrist og fjarka þó að það sé ljóst að ég sé ekki leikmaður sem spilar allra jafna undir körfunni. Uppsala vildi virkilega fá mig og maður vill spila þar sem er áhugi á að fá mann. Ég hef fengið góða innsýn inn í félagið og aðstöðuna. Við getum unnið öll lið í deildinni," sagði Helgi Már í viðtali við Uppasala Nya Tidning.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×