Handbolti

Vilhelm Gauti: Erum ekki dyramottur fyrir Haukana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vilhelm Gauti í baráttunni.
Vilhelm Gauti í baráttunni. Mynd/Daníel
Vilhelm Gauti Bergsveinsson segir að herslumuninn hafi vantað upp á hjá sínum mönnum í HK gegn Haukum í kvöld.

Haukar eru nú komnir í 1-0 í rimmu liðanna í undanúrslitum úrslitakeppni N1-deildar karla eftir sigur á HK á heimavelli í kvöld, 22-20.

„Við vorum nálægt því. Við hefðum þurft að nýta vítin og færin sem við sköpuðum okkur betur," sagði Vilhelm Gauti.

„Við héldum alltaf sjó og Bubbi [Sveinbjörn Pétursson] varði sína bolta. En Birkir Ívar [Guðmundsson] varði aðeins of marga bolta og það fannst mér gera gæfumuninn í dag. En við hættum aldrei og þó svo að við lentum 4-5 mörkum undir náðum við þeim aftur," bætti hann við.

Og hann segir að HK muni ekki gefast upp. „Við erum ekki dyramottur fyrir Haukana og þetta eru ekki æfingaleikir fyrir þá. Við ætlum okkur í úrslitin. Nú þurfum við að vinna leikinn á laugardaginn og kom svo aftur hingað í oddaleik. Flóknara er það ekki."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×