Viðskipti innlent

Peningarnir leita á fasteignamarkað

Við tjörnina Háir vextir hafa komið niður á eignamyndun í íbúðarhúsnæði, segir Ásgeir Jónsson hagfræðingur. Fréttablaðið/Vilhelm
Við tjörnina Háir vextir hafa komið niður á eignamyndun í íbúðarhúsnæði, segir Ásgeir Jónsson hagfræðingur. Fréttablaðið/Vilhelm

Gert er ráð fyrir að fasteignamarkaður standi í stað í nýrri hagspá greiningardeildar Arion banka. „Hann gæti þó tekið við sér fyrr en við gerðum ráð fyrir,“ segir Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildarinnar. Þar segir hann gæta áhrifa þess hversu mikið magn peninga sé í umferð í bankakerfinu án þess að vænlegir fjárfestingarkostir séu í boði.

„En framboðið er svo mikið að fasteignamarkaðurinn hækkar ekki mikið,“ segir hann.

Ásgeir telur hins vegar ljóst að hér stefni í að verði til leigumarkaður húsnæðis að norrænni fyrirmynd. „Það er enginn hlutabréfamarkaður þannig að næsti markaður verður örugglega fasteignamarkaður,“ segir hann og kveður útleigu á fasteignum virðast orðinn þokkalegan kost.

„En ég er ekki að segja að það verði nein bóla, því að framboðið er svo mikið. Við munum hins vegar sjá þróun í þá átt að venjulegt fólk stýri fram hjá mikilli skuldsetningu með íbúðakaupum og velji fremur að leigja,“ segir hann og telur um margt hollara fyrir hagkerfið að ungt fólk byggi upp eiginfjárgrunn í leiguhúsnæði, til fasteignakaupa síðar, fremur en að taka mikil lán. - óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×