Handbolti

Elvar Friðriksson: Hef mjög góða tilfinningu fyrir þessum leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Friðriksson.
Elvar Friðriksson. Mynd/Valli
Elvar Friðriksson spilaði á ný með Valsmönnum í öðrum úrslitaleiknum á móti Haukum í dag eftir að hafa misst af þeim fyrsta vegna meiðsla. Elvar átti fína innkomu í leikinn og var með 2 mörk og 4 stoðsendingar.

„Það er miklu skemmtilegra að fá aðeins að vera með í þessu þótt að það hafi ekki verið mikið í þetta skiptið. Það kemur kannski aðeins öðruvísi ógnun með manni," sagði Elvar.

Valsmenn skoruðu aðeins 2 mörk síðustu 15 mínútur leiksins en náðu að halda út og tryggja sér sigur.

„Við þurfum greinilega að fá einhverja aukaorku í síðustu tíu mínúturnar í næsta leik en ég hef mjög góða tilfinningu fyrir þessu og hlakka að spila næsta leik. Það var virkilega sterkt að klára þennan leik og gaman að gera það líka fyrir framan alla þessa áhorfendur," sagði Elvar.

„Við erum að byrja þessa leiki með smá flugeldasýningu en við náðum að halda þessu núna. Það er spurning hvort okkur hafi tekist að nota hópinn aðeins betur í þessum leik og náð fleirum inn á völlinn. Það munar í svona törn því þetta er ekkert smá álag á þá sem eru að spila," sagði Elvar.

Næsti leikur er á Ásvöllum á þriðjudaginn en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki verður Íslandsmeistari.

„Þeir eru með góðan heimavöll en ég hef mjög góða tilfinningu fyrir þessum leikjum og ég er viss um að við komum með sama krafti í næsta leik líka," sagði Elvar að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×