Handbolti

Gríðarleg spenna fyrir lokaumferðina í N1-deild karla

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það er mikið undir hjá bæði Akureyri og FH í kvöld.
Það er mikið undir hjá bæði Akureyri og FH í kvöld. Mynd/Anton

Lokaumferðin í N1-deild karla í handbolta fer fram í kvöld. Mikil spenna er fyrir leiki kvöldsins enda er barist hart um sæti í úrslitakeppninni sem og á botni deildarinnar.

Haukar, Valur og HK hafa þegar tryggt sér sæti í úrslitakeppninni og það verður annað hvort Akureyri eða FH sem nær síðasta sætinu í úrslitakeppninni.

Akureyri stendur aðeins betur að vígi fyrir kvöldið enda með stigi meira en FH. Akureyri þarf aftur á móti að spila gegn Íslands- og bikarmeisturum Hauka á Ásvöllum á meðan FH sækir HK heim í Digranes.

Stjarnan og Fram mætast síðan í rosalegum botnbaráttuslag. Fram nægir jafntefli í leiknum til þess að sleppa við beint fall en ef Stjarnan vinnur leikinn þá er Fram fallið. Grótta er sloppið við fall en gæti þurft að fara í umspil um sæti í efstu deild á næsta ári tapi liðið fyrir Val og Fram vinnur Stjörnuna.

Neðsta liðið í deildinni fellur en næstneðsta liðið fer í umspil. Fjögur efstu liðin komast í úrslitakeppnina.

Leikir kvöldsins:

Haukar-Akureyri

Stjarnan-Fram

HK-FH

Valur-Grótta

Staðan:

Haukar    30 stig

Valur       25 stig

HK           24 stig

Akureyri  22 stig

FH           21 stig

Grótta     14 stig

Fram       13 stig

Stjarnan 11 stig




Fleiri fréttir

Sjá meira


×