Fótbolti

Leonardo, þjálfari AC Milan: Ég ætla ekki að gefast upp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leonardo er í miklum vandræðum með AC Milan liðið.
Leonardo er í miklum vandræðum með AC Milan liðið. Mynd/AFP

Það er óhætt að segja að það sé orðið heitt undir Brasilíumanninum Leonardo sem stýrir stórliði AC Milan. Liðið mætir Atalanta á útivelli í ítölsku deildinni og það gæti orðið síðasta tækifærið fyrir Leonardo að bjarga starfinu sínu.

AC Milan er sem stendur í 10. sæti deildarinnar en liðið hefur aðeins unnið 2 af fyrstu 6 deildarleikjum sínum og tapaði síðan 0-1 á heimavelli á móti svissneska liðinu FC Zürich í Meistaradeildinni í vikunni.

„Ég ætla ekki að gefast upp," sagði Leonardo við ítalska blaðið Gazzetta dello Sport. „Ég lít ekki á Atalanta-leikinn sem einhvern úrslitaleik fyrir mig. Ef við töpum þá er það á minni ábyrgð en einnig þeirra sem réðu mig," sagði Leonardo og bætti við:

„Við erum samt bara að byrja tímabilið og það er nóg af leikjum eftir ennþá. Það er verkefni í gangi og vonandi getum við stigið skref fram á við í þessum leik," sagði Leonardo sem óttast það ekki að vera rekinn.

„Ég hef engar áhyggjur af því að fá sparkið því það eina sem ég einbeit mér að er að ná góðum úrslitum úr þessum leik á móti Atalanta. Ég læt harða gangrýni ekki pirra mig of mikið. Ég hlusta á hana upp að vissu marki en svo þarf ég halda áfram að sinna minni vinnu," sagði Leonardo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×