Handbolti

Aron: Vörn og markvarsla vinna titilinn

Aron Kristjánsson þjálfari Hauka segir að það verði varnarleikur og markvarsla sem ráði því hvaða lið stendur uppi sem Íslandsmeistari í handknattleik þetta árið.

Haukalið Arons fær Val í heimsókn á Ásvelli í kvöld í fyrsta leiknum í úrslitaeinvíginu. Blásið verður til leiks klukkan 19:45.

"Við höfum verið það lið sem hefur verið hvað jafnast í vetur á meðan leikur Vals hefur verið sveiflukenndari. Við unnum deildina fyrst og fremst út á það hvað við vorum stöðugir líkt og í fyrra og það ætti að skila okkur í þessum leikjum," sagði Aron í samtali við Vísi.

Haukunum hefur gengið ágætlega með Valsmenn í vetur og Aron bindur miklar vonir við heimavöllinn.

"Við höfum unnið fjóra af fimm leikjum okkar við Val í vetur að ég held. Við töpuðum reyndar mjög illa í Vodafonehöllinni en það var leikur inn á milli tveggja Evrópuleikja hjá okkur. Ég held að við verðum að nýta okkur heimavallarréttinn í þessari séríu. Við unnum hörðum höndum að því að ná heimavellinum og við trúum að við getum unnið alla leiki á Ásvöllum. Það er okkar vígi og þar líður okkur vel - ekki það að við höfum verið eitthvað slakir á útivöllum," sagði Aron.

En hvað verður það sem ræður úrslitum í einvíginu að mati Arons?

"Varnarleikurinn þarf að vera mjög öflugur því Valsliðið er með snögga og lipra menn í skyttustöðunum. Varnarleikurinn þarf að vera hreyfanlegur og góður og svo held ég að markvarslan ráði miklu um það hvaða lið verður meistari. Ég held að liðið sem spilar betri vörn og fær betri markvörslu taki titilinn," sagði Aron.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×