Handbolti

Ólafur Guðmunds.: Svekkjandi því við stefnum hátt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ólafur Guðmundsson.
Ólafur Guðmundsson. Mynd/Stefán

„Það var smá jákvætt í þessu en líka neikvæðir punktar. Við vorum ekki að spila eins vel og við getum og því fór sem fór," sagði niðurlút skytta FH-inga, Ólafur Guðmundsson, eftir jafnteflisleikinn gegn HK í Digranesi í kvöld.

„Það sem mér fannst jákvætt var að við spiluðum hörkuvörn til að byrja með og keyrðum hraðann sem við viljum keyra. Sóknarleikurinn var ekki nógu góður en við vorum að taka ótímabær skot. Það voru samt fínir kaflar í þessu inn á milli," sagði Ólafur jákvæður þrátt fyrir vonbrigðin.

Jafnteflið tók greinilega mjög á FH-inga sem fóru hundfúlir inn í klefa strax eftir leik til þess að fara yfir málin. Fjölmiðlamenn máttu því bíða drjúga stund eftir því að ná viðtölum en þegar klefinn loks opnaðist var létt jarðarfararstemning innandyra.

„Við stefnum hátt og að sjálfsögðu eru menn ósáttir við að missa stig þegar við vorum nánast komnir með bæði stigin. Við erum lið sem ætlar sér í úrslitakeppni í ár og hvað við gerum svo verður bara að koma í ljós," sagði Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×