Handbolti

Sigfús: Fá sér tyggjó og bíta á jaxlinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigfús Sigurðsson, leikmaður Vals.
Sigfús Sigurðsson, leikmaður Vals. Mynd/Arnþór
Sigfús Sigurðsson ætlar að bíða með að fara í aðgerð á hné þar til að úrslitakeppninni í N1-deild karla lýkur. Valur mætir í kvöld HK í oddaleik um hvort liðið kemst í úrslitarimmuna.

Sigfús er búinn að vera að spila með Val þrátt fyrir að finna fyrir miklum sársauka í hnénu.

„Hnéð á mér er þannig séð varla göngufært," sagði Sigfús. „Ég fór í aðgerð í nóvember og mér skilst að það sé einhver eftirmáli af þeirri aðgerð sem þurfi að laga nú."

„Ég finn fyrir miklum sársauka og má varla koma við nokkra staði án þess að maður emji af sársauka. En það er ekkert annað að gera en að fá sér tyggjó og bíta á jaxlinn - fara svo glaður í aðgerð með gullið um hálsinn."

Sigfús segir að leikurinn í kvöld leggist vel í sig. „Eins og alltaf þá leggst þetta verkefni vel í mig. Það verður svo bara að koma í ljós hvernig leikurinn mun þróast."

„En HK er vissulega með hörkulið og þeir hafa verið óheppnir með meiðsli í vetur. Nú eru þeir búnir að fá alla sína menn til baka. Liðið hefur verið að spila bæði góða vörn og sókn og markvarslan hefur svo verið að lagast."

„Þetta er dæmigerður „fifty-fifty"-leikur. Útkoman verður bara að koma í ljós."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×