Handbolti

FH-ingar bjóða mönnum frítt á leikinn gegn Val

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson og félagar í FH ætla sér inn í úrslitakeppnina.
Aron Pálmarsson og félagar í FH ætla sér inn í úrslitakeppnina. Mynd/Stefán

FH-ingar eru í harðri baráttu við HK, Fram og Akureyri um tvö síðustu sætin inn í úrslitakeppni N1 deildar karla og þeir hafa ákveðið að bjóða frítt á leikinn á móti bikarmeisturunum á morgun. FH fær þá Val í heimsókn og hefst leikurinn klukkan 19.30.

Aðalstyrktaraðili FH, Byr, mun ásamt handknattleiksdeild FH bjóða mönnum á leikinn en heimamenn í FH ætla væntanlega að hefna fyrir tapið í undanúrslitaleik Eimskipsbikarsins á dögunum.

Það er gríðarlega barátta framundan um sæti í úrslitakeppninni þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir af deildarkeppninni. FH, Fram, HK og Akureyri berjast nú um þátttökurétt en nokkuð víst þykir að Haukar og Valur landi tveimur efstu sætunum.

Það hefur verið vel mætt á marga FH-leiki í vetur og vonast Hafnfirðingar nú eftir nær fullu húsi og miklum stuðningi í þessum mikilvæga leik á móti Val.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×