Viðskipti erlent

Blooming Marvellous orðin gjaldþrota

Verslunarkeðjan Blooming Marvellous er gjaldþrota en keðjan sem verslar með föt og vörur fyrir sængurkonur og nýbura er í eigu Kcaj fjárfestingarfélagsins sem aftur er að mestu í eigu Milestone.

Í frétt um málið í Financial Times segir að keðjan sé sú síðasta í röð fjárfestinga Íslendinga í Bretlandi sem komast í þrot. Skiptastjórar hafa verið skipaðir frá félaginu MCR og er nú unnið að sölu á búðum og eignum Blooming Marvellous en búðirnar eru 14 talsins.

Tvö af fyrirtækjum Kcaj eru þegar komin í þrot, það er Hardy Amies (fyrrum klæðskerar Bretadottningar) og Ghost.

Hinsvegar munu aðrar fjárfestingar Kcaj ekki vera í hættu, eins og t.d. Cruise og Aspinalls of London enda gengur rekstur þeirra vel.

Kcaj var stofnað af Jón Scheving Thorsteinssyni og var lengi í eigu fjárfestingarfélags hans Arev áður en meirihluti sjóðsins var seldur til Milestone í fyrra. Nöfnin Kacj og Arev eru tekin úr sjónvarpsþáttunum Coronation Street.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×