Tony Bak forstjóri D´Angleterre hótelsins, sem er í eigu Íslendinga, hefur látið af störfum og ráðið sig til mesta keppinautar hótelsins. Á vefsíðunni business.dk segir að þetta sé þungt högg fyrir hina íslensku eigendur.
Tony Bak vann um tveggja ára skeið fyrir Remmen-fjölskylduna áður en hún seldi D' Angleterre og fleiri eignir til Nordic Partners í september árið 2007. Nordic Partners er í eigu Íslendinga og er Gísli Reynisson stjórnarformaður félagsins.
Nú hefur Tony Bak tekið við stöðu forstjóra hjá norrænu hótelkeðjunni First Hotels en sú keðja á m.a. hótelið Skt. Petri sem keppir við D´Angleterre um titilinn besta og virðingarmesta hótel Kaupmannahafnar.
Samkvæmt upplýsingum frá Nordic Partners er búið að finna nýjan hótelstjóra fyrir D' Angleterre og verður nafn hans tilkynnt innan tíu daga.