Innlent

Anna Margrét vill á þing fyrir Samfylkinguna

Anna Margrét Guðjónsdóttir, forstöðumaður skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga í Brussel.
Anna Margrét Guðjónsdóttir, forstöðumaður skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga í Brussel.

Anna Margrét Guðjónsdóttir, forstöðumaður skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga í Brussel, býður sig fram í 1.-3. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

Í tilkynningu segir að framboð hennar sé fyrst og fremst grundvallað á þeirri þekkingu og reynslu sem hún hefur af sveitarstjórnar- og byggðamálum bæði hér á landi og innan Evrópusambandsins. Anna Margrét hyggst beita sér sérstaklega fyrir eflingu atvinnulífs í dreifðari byggðum landsins og um leið bættri afkomu heimilanna. Hún hyggst jafnframt tala fyrir þeim margþættu tækifærum sem sveitarfélögum bjóðast á vettvangi Evrópusambandsins.

„Ég tel gífurlega mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að horfa fram á veginn og hefja kröftugt uppbyggingarstarf nú þegar fremur en að hörfa til eldri umgjarðar fjármálaþjónustu og atvinnulífs. Við þurfum fyrst og síðast að skapa atvinnulífinu nýtt svigrúm og ný tækifæri til að nýta krafta þeirra fjölmörgu sem misst hafa vinnuna undanfarna mánuði. Við eigum að fara í opinberar og mannaflsfrekar framkvæmdir, aðstoða einstaklinga með góðar hugmyndir við að stofna fyrirtæki, þróa nýjar afurðir í matvælaframleiðslu með áherslu á gæði og hollustu, efla ferðaþjónustu sem byggir á náttúru, menningu og hreinni orku, byggja upp þekkingarmiðstöðvar þar sem við tengjum saman rannsóknir og framleiðslu, flytja út einstaka þekkingu okkar á ýmsum sviðum o.s.frv. Við eigum að horfa með opnum hug til annarra landa í leit að hugmyndum og samstarfsaðilum. Þannig styrkjum við sjálfsmynd okkar og ímynd þjóðarinnar erlendis," segir Anna Margrét.

Hún hefur opnað vefsíðuna: www.annamargret.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×