Handbolti

Til í að hitta þá alla út á plani á laugardag og berja þá

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sigfús var reiður eftir leikinn.
Sigfús var reiður eftir leikinn. Mynd/Arnþór

„Þeir börðu og börðu frá sér í Hafnarfirði. Svo er aðeins tekið á þeim hérna og þeir væla eins og kellingar. Þeir geta búist við öðru eins í Hafnarfirði á laugardaginn," sagði illvígur Sigfús Sigurðsson, leikmaður Vals, eftir leikinn.

Hann var ekki að fagna sigrinum heldur enn með blóð á tönnunum og heldur betur til í meiri slagsmál við Haukana.

„Það kemur enginn með ruddabrot eins og Kári í síðasta leik og kemst upp með það. Það var skömm að því broti og það er HSÍ til skammar að hafa ekki dæmt hann í bann eftir leikinn. Það var ásetningur hjá Kára að meiða manninn," sagði Sigfús og var ekki hættur.

„Svo eru fleiri menn í þessu liði sem eru sívælandi. Þeir voru með skítabrot og reyndu meðal annars að sparka í liggjandi mann. Ef menn ætla að haga sér svona þá fá þeir það sama til baka.

Við vorum reiðir og erum það enn. Ef þeir vilja fara með þetta í einhver slagsmál þá segi ég bara gjöriði svo vel. Ég er til í að hitta þá alla út á plani eftir leik á laugardag og berja þá," sagði Sigfús reiður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×