Íslenski boltinn

Umfjöllun: KR gerði jafntefli við Basel

Guðmundur Marínó Ingvarsson skrifar
KR-ingar slógu gríska liðið Larissa út úr síðustu umferð.
KR-ingar slógu gríska liðið Larissa út úr síðustu umferð. Mynd/Valli

KR gerði jafntefli, 2-2, við Basel frá Sviss í þriðju umferð forkeppni Evrópudeildar UEFA í kvöld.

KR-ingar leyfðu leikmönnum Basel að leika boltanum úti á vellinum og freistuðu þess að sækja hratt þegar boltinn og skilað það sér í tveimur mörkum á fyrstu mínútum leiksins. Það fyrra kom á sjöttu mínútu þegar Guðmundur Benediktsson skoraði af stuttu færi eftir að Baldur Sigurðsson skallaði aukaspyrnu Bjarna Guðjónssonar áfram í teignum.

Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Grétar Sigfinnur Sigurðarson mark eftir hornspyrnu, ekki ósvipað markinu sem hann skoraði gegn Larissa í Grikklandi.

Basel var meira með boltann án þess að skapa sér færi við mark KR sem að sama skapi hafa verið ógnandi í skyndisóknum og föstum leikatriðum.

KR gaf andstæðingum sínum ekki mikið pláss á sínum eigin vallarhelming og var allt liðið mjög aftarlega á vellinum en leikaðferð KR gekk fullkomlega upp í fyrri hálfleik.

Leikmenn Basel áttu auðveldara með að búa sér til pláss í síðari hálfleik og voru aðeins þrettán mínútur að minnka muninn en þar var á ferðinni Scott Chipperfield eftir skyndisókn.

Það dró af KR-ingum er leið á hálfleikinn enda útheimtir leikaðferð þeirra mikla orku. Þrátt fyrir það fengu gestirnir ekki mörg færi en þó nógu mörg til að jafna metin en það gerði varamaðurinn Federico Almerares á 83. mínútu eftir að rangstöðutaktík KR brást.

KR-ingar geta nagað sig í handabökin að hafa ekki nýtt góða stöðu sína í hálfleik betur en liðið sýndi oft góð tilþrif í leiknum en að lokum var einfaldlega of erfitt að liggja eins aftarlega og raun bar vitni gegn þetta sterku liði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×