Enski boltinn

Benitez ekkert heyrt af orðrómum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafa Benitez í leiknum í kvöld.
Rafa Benitez í leiknum í kvöld. Nordic Photos / Getty Images

Rafa Benitez sagði eftir sigur sinna manna í Liverpool á Real Madrid í Meistaradeildilnni í kvöld að hann viti ekkert um þann orðróm sem gekk um að hann yrði senn rekinn frá félaginu.

Fjallað var mikið um það í enskum fjölmiðlum í dag að sá orðrómur væri á kreiki að eigendur Liverpool ætluðu sér að reka Rafa Benitez knattspyrnustjóra.

„Ég vissi ekkert um þetta. Ég var að tala við vini mína í Madríd og einbeita mér að leiknum," sagði Benitez sem neitaði því einnig að orðrómurinn væri sannur. „Nei, ég var bara að hugsa um leikinn."

„Það eru margir mikilvægir leikir framundan og vil ég einbeita mér að þeim. Ég verð svo í sambandi við eigendur félagsins."

Benitez hefur hingað til neitað að skrifa undir nýjan samning við félagið og talið er að hann fari fram á það að hafa algert úrslitavald yfir öll mál sem lúta að leikmannasölum og -kaupum.

Jamie Carragher, leikmaður Liverpool, gaf einnig lítið fyrir fréttir dagsins. „Ég fékk SMS um þetta en það hefur ýmislegt verið sagt um Liverpool í gegnum tíðina og er þetta bara eitt af því. Þetta er orðrómur sem er ekki sannur."

Hann var ánægður með úrslit leiksins í kvöld. „Þetta var einmitt það sem maður vill - mark á útivelli og halda hreinu. En nú er aðeins hálfleikur í þessari rimmu og þeir vita nákvæmlega hvað þarf að gera."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×