Handbolti

Kári Kristján: Þetta var algjört box

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kári stóð í miklum slagsmálum á línunni í kvöld.
Kári stóð í miklum slagsmálum á línunni í kvöld. Mynd/Stefán

„Þetta var svakalegur leikur og algjört box í raun og veru. Þeir byrjuðu harðir, mjög harðir og komust upp með að spila frekar gróft allan tímann. Engu að síður dugði það ekki til hjá þeim," sagði línujaxl Haukanna, Kári Kristján Kristjánsson, eftir sigur Íslandsmeistaranna á Fram í kvöld.

„Það voru geðveikar varnir í fyrri hálfleik í þessum leik enda aðeins 10-11 í leikhléi. Maggi varði eins og rotta í markinu hjá þeim og við vorum að fara með afar mörg dauðafæri allan leikinn. Við vorum að fara með færi þegar við áttum að vera búnir að rassskella þá," sagði Kári og bætti við að það hefði ekki hjálpað Fram að Rúnar Kárason hefði verið að spila illa og enginn annar stigið upp í staðinn.

„Varnarleikurinn hjá þeim hélt í fyrri hálfleik en svo brotnaði hann í þeim síðari. Vörnin hjá okkur var aftur á móti klassi allan leikinn."

Kári stóð heldur betur í ströngu á línunni og var hraustlega tekið á Eyjamanninum stæðilega. Blaðamaður hugsaði á stundum þegar hann sá átökin hvernig stæði á því að menn nenntu að spila á línunni.

„Ég gat ekkert í öðrum stöðum og því endaði ég inn á línunni þar sem maður reynir að gera sitt besta," sagði Kári léttur.

„Þetta getur verið algjört sjálfsmorð á stundum. Ég var klæddur tvisvar úr peysunni og svo þóttist enginn hafa gert neitt. Svo öskra allir inn á að maður sé bara auli ef maður skorar ekki."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×