Handbolti

Elías Már: Auðveldara en ég átti von á

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Aron Kristjánsson var ánægður með sigur sinna manna í kvöld.
Aron Kristjánsson var ánægður með sigur sinna manna í kvöld.

Elías Már Halldórsson átti fínan leik fyrir Hauka sem vann öruggan sigur á Akureyri í N-1 deild karla í handbolta í kvöld. Elías skoraði þrjú fyrstu mörk leiksins og sex í fyrri hálfleik úr sex skotum.

"Við vorum skrefinu á undan alveg frá byrjun," sagði Elías. "Við leggjum grunninn að sigrinum í fyrri hálfleik. Mér fannst þeir mæta óvenju fúlir og pirraðir til leiks og við bara nýttum okkur það. Við keyrðum bara á þá og vorum ekkert að pirra okkur á dómurunum eða neinu slíku."

"Mér fannst við spila mjög vel í fyrri hálfleik en svo verða menn pínu værukærir þegar við erum komnir með gott forskot. Við hefðum átt að vinna þennan leik með sjö eða átta marka mun. Við gáfum eftir síðustu tíu mínúturnar, það er kannski eðlilegt. En við löndum tveimur stigum hérna á Akureyri sem ekki mörg lið gera."

"Ég bjóst við Akureyringum sterkari, ég verð að viðurkenna það. Ég átti von á brjáluðum leik, en þetta var auðveldara en ég átti von á," sagði Elías.

Og þjálfarinn Aron Kristjánsson tók í sama streng. "Ég verð að segja að ég bjóst við þeim sterkari. Þeir eru með flott lið og hafa verið að spila vel en við áttum ágætis leik í dag."

"Við erum ánægðir með okkar leik og sigurinn," sagði Aron.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×