Handbolti

Aron: Áttu fá svör við þessari framliggjandi vörn hjá okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka.
Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka. Mynd/Stefán

Haukamenn unnu sannfærandi sigur á Val í þriðja leik úrslitaeinvígis liðanna um Íslandsmeistaratitilinn en leikurinn fór fram á Ásvöllum í dag. Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka var ánægður með sína menn.

„Byrjunin var jöfn og það var mikil barátta. Við komumst síðan á góða siglingu í lok fyrri hálfleiks. Við náðum þá virkilega sterkri vörn og góðum hraðaupphlaupum. Við náðum líka sóknarleiknum í gang og fórum að spila þá hluti sem við viljum spila," sagði Aron en Haukar voru 16-11 yfir í hálfleik.

„Við höldum áfram þar sem frá var horfið í byrjun seinni hálfleiks og sóknarleikurinn var fínn. Þegar við vorum komnir með sjö marka forskot í restina þá ætlaði ég að leyfa ungu strákunum að fá smjörþefinn af þessu og leyfa Gísla að komast inn í einvígið. Svo voru það reynsluboltarnir sem voru að kasta boltanum frá sér," sagði Aron í léttum tón.

„Við hleyptum þarna smá lífi í leikinn aftur en þetta var aldrei í hættu," sagði Aron en Haukar náðu mest átta marka forskoti í seinni hálfleiknum.

„Við vorum að spila mjög flotta vörn og þeir áttu fá svör við þessari framliggjandi vörn hjá okkur. Við héldum þeim verulega vel niðri og þeir þurftu hvað eftir annað að skjóta illa undirbúnir," sagði Aron.

Haukarnir geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri í fjórða leiknum sem fram fer á Hlíðarenda á þriðjudagskvöldið.

„Við erum staðráðnir í að fara í Vodafone-höllina og vinna þar. Við tökum einn leik fyrir einu og það er alltaf markmiðið að vinna næsta leik," sagði Aron að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×