Íslenski boltinn

Jónas Guðni: Yndislegt að skilja við KR með þessum hætti

Ómar Þorgeirsson skrifar
Jónas Guðni Sævarsson lék sinn síðasta leik með KR í gær, í bili að minnsta kosti. Hann heldur nú til Halmstad í Svíþjóð.
Jónas Guðni Sævarsson lék sinn síðasta leik með KR í gær, í bili að minnsta kosti. Hann heldur nú til Halmstad í Svíþjóð. Mynd/Valli

KR-ingar gerðu sér lítið fyrir og nældu í 1-1 jafntefli gegn Larissa í Grikklandi í gær og unnu einvígið samanlagt 3-1. KR-ingar mæta Basel frá Sviss í næstu umferð Evrópudeildar UEFA.

„Það var gríðarlega erfitt að spila í 35 stiga hita en við sýndum frábæran karakter. Þetta var gríðarlega ljúft og það er frábært að skilja við KR-inga eftir þennan leik," segir fyrirliðinn Jónas Guðni Sævarsson sem var að spila sinn síðasta leik fyrir KR. Jónas Guðni heldur nú til Svíþjóðar þar sem hann mun spila með Halmstad.

„Það er yndislegt að skilja við KR með þessum hætti og ég kveð félagið með söknuði. Ég vona bara að KR komist í riðilinn og kaupi mig þá til baka frá Halmstad," segir Jónas Guðni léttur í bragði í leikslok í gær.

Leikmenn Larissa komust yfir eftir hálftímaleik í gær og voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en staðan var enn 1-0 þegar flautað var til hálfleiks. KR-ingar komu sterkir inn í seinni hálfleikinn og náðu að jafna á 75. mínútu. Grétar Sigfinnur Sigurðsson skoraði þá eftir hornspyrnu og eftir jöfnunarmarkið voru KR-ingar með þetta í hendi sér og leikurinn endaði sem segir 1-1. Glæsileg úrslit fyrir KR og íslenskan fótbolta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×