Handbolti

Pálmar: Gáfumst aldrei upp og uppskárum eftir því

Ómar Þorgeirsson skrifar
Pálmar Pétursson fór á kostum í sigri FH gegn Fram í kvöld og var hetja liðsins á lokakaflanum.
Pálmar Pétursson fór á kostum í sigri FH gegn Fram í kvöld og var hetja liðsins á lokakaflanum.

Húsvíkingurinn Pálmar Pétursson átti stórleik í marki FH í 25-24 sigri liðsins gegn Fram í N1-deildinni í Kaplakrika í kvöld.

Pálmar varði 25 skot þar af þrjú víti og reyndist betri en enginn á lokakafla leiksins þegar hann varði meðal annars víti á ögurstundu í stöðunni 23-24 og svo dauðafæri í stöðunni 24-24. FH fékk boltann og brunaði í sókn sem gaf sigurmarkið úr víti.

„Þetta var í einu orði sagt rugl. Ég get samt ekki sagt að ég finni til með Frömurunum því þeir klúðruðu þessu bara á meðan við sýndum gríðarlegan karakter. Við náðum bara að þjappa okkur saman á lokakaflanum og allir voru trylltir í vörninni. Þetta var ef til vill ekki fallegasti leikurinn okkar til þessa en það er bara sama gamla klisjan að við gáfumst aldrei upp og uppskárum eftir því," sagði Pálmar í leikslok í kvöld.

„Sóknarleikurinn hjá okkur var náttúrulega skelfilegur nánast allan leikinn og mikið af töpuðum boltum og skotum framhjá auk þess sem við vorum að láta Magga verja slatta frá okkur.

Sigurinn gefur okkur hins vegar mikið sjálfstraust upp á framhaldið að gera. Þetta var mjög ljúft því að þessi sigur skilur okkur aðeins frá botnliðunum og setur okkur í fín mál í toppbaráttunni. Við stefnum á að verða á topp fjögur og við verðum bara að halda áfram á þessarri braut," sagði Pálmar að lokum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×