Handbolti

Aron: Lýsti eftir karakter hjá mínum mönnum

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Aron Kristjánsson
Aron Kristjánsson Mynd/Anton

„Mér fannst við byrja leikinn mjög vel í vörninni og vera virkilega grimmir. Mér fannst við hinsvegar gera alveg fáránlega mikið af mistökum upp völlinn, hendum boltanum frá okkur og skjótum illa á markvörðinn.

Þess vegna náðum við ekki þessu forskoti í byrjun leiks sem maður vonaðist eftir. Þetta var í járnum allan tíman þar til Fram nær forskoti undir lok fyrri hálfleik vegna mistaka okkar," sagði Aron Kristjánsson þjálfari Hauka eftir sigurinn á Fram í kvöld.

„Ég lýsti eftir karakter hjá mínum mönnum í síðari hálfleik og fékk hann heldur betur. Var gríðarlega ánægður með þennan karakter og nú verður ekki aftur snúið," sagði Aron.

„Ég var mjög ánægður með Gunnar Berg, það er gott að fá einn mann sem getur skorað utan af velli. Sigurbergur Sveinsson gengur ekki heill til skógar, hann á í vandræðum með hnéð á sér og það hrjáir hann mikið. Hann er í úrslitakeppni í fyrsta sinn og er ungur leikmaður og þarf að læra að spila með smá hnjaski eins og maður segir," bætti Aron við.

„Heimir Óli var með fína innkomu í vörnina. Strákur sem er fullur sjálfstrausts og með stórt og gott Hauka-hjarta. Hann svaraði kallinu og virkilega flott að sjá svona ungan strák koma svona sterkan inn.

Við spiluðum líka gríðarlega góða vörn í fyrri hálfleik og framan af síðari hálfleik svo finna þeir leiðina inn á Harald á línunni. Þá bökkuðum við og lokuðum á þá," sagði Aron á lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×