Viðskipti erlent

Látlausar hækkanir á helstu hlutabréfamörkuðum ytra

Hlutabréf á helstu mörkuðum úti hafa nú hækkað látlaust í verði á aðra viku og hefur annað eins ekki sést um langa hríð. Í Bandaríkjunum hafa helstu hlutabréfavísitölur hækkað samfellt undanfarna 12 daga.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að helstu ástæður þessarar miklu hækkunarhrinu vestanhafs er uppgjörstíð sem er umfram væntingar og uppfærðar afkomuspár sem segja að það versta sé nú afstaðið á mörkuðum.

Árshlutauppgjör þeirra félaga sem hlutabréfavísitalan Standard & Poor´s 500 tekur til hafa að meðaltali verið um það bil 11% yfir meðalspám sem hefur glætt væntingar markaðsaðila. Þá hjálpaði það einnig mörkuðum vestanhafs í gær að nýjar tölur um veltu á íbúðarmarkaði í júní gefur vísbendingu um að húsnæðismarkaðurinn gæti verið á batavegi.

Eins og skemmst er að minnast má rekja rætur alþjóðlegu fjármálakreppunnar til vandræða á húsnæðismarkaði í Bandaríkjunum sem byrjuðu að smita út frá sér sumarið 2007.



Undanfarna daga hafa hlutabréfamarkaðir í Evrópu verið fagurgrænir en þar líkt og í Bandaríkjunum hafa það fyrst og fremst verið framúrskarandi góð uppgjörstíð sem hefur dregið vagninn en meira en helmingur þeirra 86 félaga sem Dow Jones Stoxx 600 vísitalan tekur til hafa skilað uppgjörum yfir væntingum.

Viðsnúnings á þessari þróun hefur þó gætt í morgun og hafa hlutabréf lækkað í verði í viðskiptum dagsins í öllum helstu kauphöllum Evrópu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×