Handbolti

Ef að við erum Pistons þá panta ég að vera Bill Laimbeer

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kári Kristján Kristjánsson.
Kári Kristján Kristjánsson. Mynd/Stefán

„Ef að maður hefur einhvern tímann verið tilbúinn í leik þá er það núna. Eina vonda er að það er svo langt á milli leikja að manni er nánast runnin reiðin eftir síðasta leik. Ég sagði samt nánast, ég er enn reiður," sagði Haukamaðurinn Kári Kristján Kristjánsson en hann segir Hauka ætla að svara fyrir sig í kvöld gegn Fram.

„Það kemur ekki til greina að fara í sumarfrí núna. Það er gríðarleg tilhlökkun í hópnum fyrir leikinn og hefur verið allt frá skipbrotinu í síðasta leik. Menn eru geysilega einbeittir á æfingum og geta vart beðið eftir leiknum," sagði Kári Kristján.

„Það er heldur ekki gott fyrir handboltann ef Haukarnir detta út. Við erum eini klúbburinn sem hefur áhuga á þessu," sagði Kári léttur.

Rúnar Kárason Framara líkti liði Hauka við Detroit Pistons og vísaði þar helst í að liðið var lengi kallað „Bad Boys". Kári líkar það ekki illa.

„Ef við erum Pistons þá panta ég að vera Bill Laimbeer. Sá maður var meistari. Það má alveg kalla okkur „Bad Boys". Við spilum fast og viljum spila fast en það er list að gera það heiðarlega og án þess að vera með ruddaskap," sagði Kári Kristján ákveðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×