Handbolti

Ekki æskilegt að Aron hafi spjallað við dómarana

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðjón segir Aron hafa rætt við dómarana í góðu í gær.
Guðjón segir Aron hafa rætt við dómarana í góðu í gær. Nordic Photos/Getty Images

Það vakti nokkra athygli eftir leik Vals og Hauka í gær að Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, skyldi fara til fundar við dómarana, Anton Gylfa Pálsson og Hlyn Leifsson. Aron spjallaði við þá nokkra stund áður en hann kom út aftur.

Í kjölfarið hafa vaknað spurningar um hvort það sé leyfilegt eða æskilegt að þjálfari sé að skeggræða við dómara svo skömmu eftir leik. Sérstaklega þar sem ansi líklegt er að viðkomandi dómarar eigi eftir að dæma annan leik hjá þessum liðum.

Vísir setti sig í samband við Guðjón L. Sigurðsson, formann dómaranefndar HSÍ, og spurði hann út í málið.

„Það eru nú engar reglur um hvort þetta sé leyfilegt. Það kemur alltaf reglulega fyrir að þjálfarar biðji um áheyrn dómara eftir leiki. Stundum er það leyft en oft er neitað um það. Í svona leikjahrinu er það kannski ekki æskilegt að dómarar hleypi þjálfara inn til sín eftir leik," sagði Guðjón.

„Kjartan Steinbach var eftirlitsdómari í gær og hann sagði Aron hafa bankað og beðið um áheyrn. Hann sagði allt hafa farið fram á góðum nótum. Menn hafi skipst á skoðunum um ákveðin efni, tekist í hendur og búið," sagði Guðjón sem var persónulega ánægður með frammistöðu dómaranna í gær.

Upp eru raddir um að þeir Anton og Hlynur dæmi þá leiki sem eftir eru í rimmunni enda eru þeir okkar fremsta dómarapar.

Guðjón staðfesti að svo yrði þó ekki. Þeir Ingvar Guðjónsson og Jónas Elíasson munu dæma næsta leik á laugardaginn. Hverjir dæma eftir það hefur ekki verið ákveðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×