Körfubolti

Fyrsta ófríska konan á forsíðu ESPN-tímaritsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Candace Parker með verðlaunin sem mikilvægasti leikmaður WNBA-deildarinnar.
Candace Parker með verðlaunin sem mikilvægasti leikmaður WNBA-deildarinnar. Mynd/GettyImages

Candace Parker, besti leikmaður síðasta tímabils í WNBA-deildinni í körfubolta er á forsíðu nýjustu útgáfu ESPN-tímaritsins sem væri kannski ekki fréttnæmt nema að hún er kasólétt á myndunum. Parker er þar með fyrsti ólétti íþróttamaðurinn sem birtist á forsíðu blaðsins.

ESPN-blaðið notar tvíræða fyrirsögn með greininni og spyr: „How big can Candace Parker get?" eða hversu stór getur Candace Parker orðið.  Það má sjá myndir af forsíðu blaðsins hér.

Parker varð bæði háskólameistari og Ólympíumeistari á síðasta ári en tókst ekki að vinna WNBA-titilinn líka með Los Angeles Sparks.

Hún komst í heimsfréttirnar með því að verða fyrsta konan til þess að troða í tveimur leikjum í röð í WNBA-deildinni en fyrir það hafði aðeins ein kona troðið einu sinn í leik í deildinni.

Parker varð aftur á móti fyrsti leikmaðurinn í WNBA-deildinni sem er kosinn besti nýliðinn og mikilvægasti leikmaðurinn á sama tímabili. Parker var með 18.5 stig að meðaltali í leik auk þess að taka 9,5 fráköst, gefa 3,4 stoðsendingar og verja 2,3 skot.

Parker tilkynnti í upphafi ársins að hún myndi missa af næsta tímabili hjá Los Angeles Sparks í WNBA-deildinni þar sem hún er að fara eignast sitt fyrsta barn í vor. Eiginmaður hennar er Shelden Williams fyrrum leikmaður Duke-háskólans og núverandi leikmaður Minnesota Timberwolves í NBA-deildinni.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×